Seðlabankar heims munu þurfa að halda áfram að hækka stýrivexti til þess að stemma stigu við verðbólguþrýstingi vegna þess mikla hagvaxtar sem hefur einkennt hagkerfi heimsins undanfarin misseri. Þetta kemur fram í ársskýrslu Alþjóðagreiðslumiðlunarbankans (e. Bank for International Settlements) en ársfundur hans fór fram í Basel í Sviss um helgina.

Sérfræðingar Alþjóðagreiðslumiðlunarbankans spá því að alþjóðahagkerfið muni vaxa meira en fjögur prósent fimmta árið í röð Fram kemur í skýrslunni að vöxturinn í alþjóðahagkerfinu hafi verið "ótrúlegur" og hafi bæði verið viðvarandi í ríkum og fátækum ríkjum.

Á sama tíma hafi verðbólguþrýstingur verið minni en ætla mætti þrátt fyrir hækkandi verð á hrávörum, lágum stýrivöxtum og auðveldu aðgengi að lánsfjármagni vegna ójafnvægis í milliríkjaviðskiptum.

Hinsvegar telja sérfræðingar bankans ýmsar hættur steðja að. Í fyrsta lagi má greina merki um aukinn verðbólguþrýsting þar sem að flest helstu iðnveldi heims eru að fullnýta framleiðslugetuna sína og að innkoma nýmarkaða eins og Kína hafa minnkandi verðhjöðnunaráhrif.

Í öðru lagi benda þeir á hættuna sem stafar af enn frekari samdrætti á bandaríska fasteignamarkaðinum fyrir hagkerfi heims. Auk þess að telja þeir hættu stafa af ójafnvægi í milliríkjaviðskiptum og er bent á hversu óvenju hagstæður viðskiptajöfnuður er af milliríkjaverslun nýmarkaða eins og Kína auk olíuútflutningsríkja við umheiminn. Í ljósi þessa telja þeir hættu á hræringum á gjaldeyrismörkuðum.

Að lokum telja þeir að hátt verð á verðbréfamörkuðum geti gert það að verkum að leiðrétting geti haft meiri áhrif en ella.

Sérfræðingar bankans telja að þau ríki sem hafa mikinn viðskiptahalla eigi að bera töluverða ábyrgð til þess að draga úr eftirspurn í alþjóðahagkerfinu en segja að sama skapi að kínversk stjórnvöld eigi að sýna aukinn vilja til þess að leyfa gjaldmiðli landsins styrkjast á gjaldeyrismörkuðum.

Einnig er bent á það að sífelld veiking japanska jensins sé einkennileg og að seðlabanki landsins eigi að stefna að hærri stýrivöxtum.