Samdrátturinn síðustu misseri var fyrirsjáanlegur og hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Þetta sagði Dr. Gunnar Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands á morgunfundi Viðskiptablaðsins sem nú stendur yfir. Hann sagði ástandið þó betra en búast hefði mátt við.

Gunar sagði varasamt að horfa of stutt fram á vegin þegar leitað væri lausna við vanda á efnahagslífinu. Hins vegar sagði Gunnar að ekki mætti fresta umræðu um gjaldeyri og þeim þáttum sem snúa að honum, til dæmis gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Hann sagði að næg verkefni væru til á Íslandi og sagði hagvöxt síðustu ára ekki hafa orðið til úr engu. Nefndi hann sem dæmi að nauðsynlegt væri að bæta þjóðvegi og brýr landsins, efla menntakerfið og heilbrigðiskerfið. Gunnar sagði þetta þjóðhagslega hagkvæm verkefni.

Reynir á Seðlabankann

Gunnar sagði vandamál við peningastjórn ekki síður vera innanlands. Þá hafi reynt mjög á peningastjórn Seðlabankans og muni reyna áfram um sinn.

Í ræðu sinni rakti Gunnar hagsögu landsins til nokkurra ára, meðal annars einkavæðingu ríkisfyrirtækja, stóriðjuframkvæmdir, grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi húsnæðismarkaðar og fleira. Hann sagði  kaupmáttaraukningu hér á landi hafa aukist um 71% á árunum 1994 – 2006 sem væri aukning um 4,6% á ári.

Gunnar sagði Íslendinga hafa eignast „mikið úr engu“ og benti á að árið 1995 voru erlendar fjárfestingar Íslendinga að meðaltali 625 Bandaríkjadalir á mann. Árið 2005 voru þær hins vegar 31.563 dalir á mann sem augljóslega væri mikil aukning á stuttum tíma.