Umræður um fjárlög ríkisins hafa verið áberandi í störfum Alþingis í vikunni. Búast má við að fjárlögin verði samþykkt í vikulok. Í ræðu sinni á þriðjudag brýndi Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fyrir þingi mikilvægi þess að ná hallalausum fjárlögum.

„Nú er það þannig að ef við hefðum vaxtagjöldin úr að spila, þyrftum ekki að greiða þau í vexti, þá gætum við byggt nýjan spítala á hverju einasta ári. Ef við erum ekki með hallalaus fjárlög þá munum við bæta í þennan vaxtakostnað,“ sagði Guðlaugur.

Hann bað þingmenn stjórnarandstöðunnar að hugsa um þetta næst þegar þeir gerðu lítið úr markmiðum um hallalaus fjárlög og benti á að slíkt hefði ekki gengið eftir þegar farið var eftir áætlunum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.