Ef grunn­kjör á ó­verð­tryggðum í­búða­lánum á breyti­legum vöxtum og grunn­kjör á ó­hefð­bundnum spari­fjár­reikningum eru borin saman kemur í ljós að vaxta­munurinn á Ís­landi er næst­lægstur á Norður­löndunum. Mun þetta vera ein leið til að skoða mun á inn­láns- og út­láns­vöxtum.

Að­eins Danir eru með lægri vaxta­mun sam­kvæmt skýrslu starfs­hóps um gjald­tökur og arð­semi við­skipta­bankanna þriggja á Ís­landi, Lands­bankanum, Ís­lands­banka og Arion Banka.

Vaxta­munurinn er 3,3 prósentu­stig hér á landi en 3,0 prósentu­stig í Dan­mörku. Mestur er vaxta­munurinn í Finn­landi og Sví­þjóð, á bilinu 4,2-4,3 prósentu­stig, sam­kvæmt stöðunni í apríl 2023.

Vaxtasamanburður milli Norðurlandanna

Svíþjóð Noregur Danmörk Finnland Ísland
Óverðtr. íbúðalán br.vextir. 5,2% 4,8% 3,8% 4,6% 9,2%
Óbundinn sp.reikningur 1,1% 1,2% 0,8% 0,3% 5,9%
Vaxtamunur 4,2% 3,6% 3,0% 4,3% 3,3%
Heimild: Skýrsla um gjald­töku og arðsemi viðskipta­bank­anna.

Í skýrslunni segir að þetta sé gagn­leg vís­bending um að á­lagning ís­lensku bankanna í formi vaxta­munar á inn­lánum ein­stak­linga og í­búða­lánum sé ekki mjög frá­brugðin því sem gengur og gerist á hinum Norður­löndunum.

Skoraði á bankanna að lækka vaxtamun

Lilja Al­ferðs­dóttir, menningar- og við­skipta­ráð­herra, skoraði á ís­lensku bankana fyrir helgi að lækka vaxta­mun. Þá var því einnig haldið fram í kjöl­far skýrslunnar að vaxta­munur væri mun meiri á Ís­landi en annars staðar á Norður­löndunum.

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið í síðustu viku sagði Már Wolf­gang Mixa, lektor í fjár­málum við við­skipta­fræði­deild Há­skóla Ís­lands, að þegar rýnt er í tölurnar sést að á sama tíma og vaxta­munurinn tók að hækka hér á landi í fyrra hafi það sama gerst hjá öðrum bönkum á Norður­löndunum.

„Það segir sig sjálft að þetta er að gerast hjá öllum hinum bönkunum. Vaxta­munur er að aukast á öllum stöðum en það hlýtur að vera tíma­bundið á­stand.“

Hann segir það sé snúið að bera saman ís­lensku bankana við þá er­lendu og spilar það inn í að stýri­vextir eru mun hærri hér á landi.

Komið hefur fram í greiningum að það sé auð­veldara að auka vaxta­mun þegar vaxta­stig er hátt og því telur Már ein­sýnt að vaxta­munurinn muni lækka þegar stýri­vextir lækka, miðað við þróunina sem varð 2020 og 2021.

„Það má gera ráð fyrir því að það sé á­kveðin töf, að það taki ein­hverja mánuði fyrir aukinn vaxta­kostnað bankanna að koma inn. Það þyrfti kannski að at­huga þetta líka í sam­ræmi við það þegar vaxta­stig fer aftur að lækka. Þá er kannski raun­hæfara að bera saman þennan vaxta­mun,“ segir Már.