Landsbankinn hefur fengið alþjóðabankann HSBC til að leita að yfirtökutækifærum í Bretlandi. Þetta kemur fram í viðtali við Sigurjón Þ. Árnason í Financial News. Landsbankinn er kynntur sem bankanum sem mistókst að yfirtaka verðbréfafyrirtæki Numis og sagt er að hann hafi fyrst vakið athygli með ráðgjöf við yfirtöku Avion Group á Excel Airways. Þetta er sagt vera mikilvægasta ráðgjafaverkefni bankans hingað til en þegar tilboðsgögnin voru gerð opinber kom í ljós að þau virtust einungis vera formsatriði.

Landsbankinn er sagður vera viðskiptabanki Icelandair en að bankinn hafi ekki tekið þátt í kaupum félagsins á hlutnum í easyJet. Sigurjón segir að hann muni bíða og sjá hvort að óskað verði eftir aðstoð við ráðgjöf að hálfu Icelandair.

Í grein Financial News kemur fram að fjórðungur af útlánum bankans séu til erlendra aðila og haft er eftir Sigurjóni að markaðurinn eftir fjármálaþjónustu sé mettur á Íslandi og að erlend lán bankans hafi aukist um 80% á þessu ári. Þetta sé að hluta til vegna náins sambands bankans við Baug en bankinn tók þátt í 110 milljóna punda yfirtöku Baugs á skartgripakeðjunni Goldsmiths fyrr á árinu.

Einnig segir að vaxtamunur bankans hafi aukist utan Íslands á meðan að hann hefur minnkað hér á landi. Sigurjón segir að bankinn leggi áherslu á erlend útlán og hann sé ánægður með að geta notað sterkan efnahag til að byggja upp fyrirtækjaráðgjöf bankans.

Þrátt fyrir viðleitni Sigurjóns segir að greiningaraðilar hafi efasemdir um að innri vöxtur einungis geti unnið Landsbankanum styrka stöðu á breskum lána- og ráðgjafamarkaði, sem þegar er mjög þétt setinn. Financial News veltir því fyrir sért hvort að Brynjólfur Helgason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs Landsbankans, hafi haft þetta í huga þegar hann sagði í maí að bankinn væri að leita að yfirtökutækifærum í Bretlandi. Skandínavía sé einnig á radarnum en Bretland sé í fyrsta sæti.

Sigurjón vildi ekki tjá sig um möguleg tækifæri í Bretlandi né heldur tilraunina til að yfirtaka Numis í síðasta mánuði en bankinn hefur ráðið HSBC til að leita að yfirtökutækifærum í Bretlandi.

Meðan að KB banki hefur verið að eygja Singer hefur Landsbankinn einbeitt sér að Numis. En minnt er á að Sigurjón hefur áhuga á Singer. Hann sé stjórnarmaður í Burðarási, sem eigi 10% hlut í Singer & Friedlander. "Ísland er lítið land," svaraði hann. Sagt er frá því að sérfræðingar bendi á að Landsbankinn og KB banki hafi unnið saman í fortíðinni þrátt fyrir samkeppni á heimamarkaði. Þeir eigi sameiginlega 30% í Singer og þeir gætu unnið saman að yfirtöku bankans segir í lok greinarinnar.