VBS fjárfestingabanki hefur gefið úr skuldabréf fyrir um 2,8 milljarða króna með veði í tæplega 200 hektara úr landi Laugardæla og spildu úr landi Uppsala í Flóa á Suðurlandi. Bankinn situr uppi með landi eftir að hafa lánað Ferjuholti ehf. fyrir kaupunum á landinu í febrúar 2007. Þetta kemur fram í Sunnlenska fréttablaðinu.

Í frétt Sunnlenska segir að hugmyndin að kaupunum á þessu landi hafi verið sú að deiliskipuleggja 6000 til 7000 manna byggð á því. Hið háa verð sem greitt hafi verið fyrir það megi rekja til „þess andrúmslofts sem var gagnvart fasteignarverði á svokölluðum jaðarsvæðum Reykjavíkur á þessum tíma.“ Sunnlenska segir að fulltrúar VBS hafi hitt yfirstjórn sveitarfélagsins Árborgar í þeim tilgangi að reyna að fá hana til að taka yfir landið og þær skuldbindingar sem því fylgja, en ekki hafi verið áhugi á því.

Mögulegur ávinningur mikilvægari en fortíð viðskiptamanns

Þá segir í fréttinni að stærsti eigandi Ferjuholts ehf. hafi verið athafnamaðurinn Engilbert Runólfsson, sem átti um tíma byggingafélögin Ris ehf. og JB byggingafélag. Engilbert hefur hlotið nokkra dóma fyrir brot á hegningarlögum og er haft eftir Jóni Þórissyni, forstjóra VBS, að starfsmönnum bankans hafi að líkindum vitað um fortíð hans þegar að viðskiptin fóru fram. Þeir hafi hins vegar fyrst og fremst horft á hugsanlegan ávinning bankans af viðskiptunum.

VBS þarf að færa núvirðinguna til baka

VBS Fjárfestingabanki færði 9,4 milljarða króna af alls 26,4 milljarða króna láni sem íslenska ríkið veitti bankanum í upphafi árs sem tekjur í ársreikningi 2008. Án núvirðingarnar hefði bankinn verið með neikvætt eigið fé og því tæknilega gjaldþrota. Lánið var veitt til að halda kröfum ríkisins vegna veðlánaviðskipta Seðlabankans lifandi, en ríkið tók yfir þær kröfur svo að Seðlabankinn yrði ekki gjaldþrota. VBS var eitt þeirra fyrirtækja sem var fyrirferðamikið í milligöngu fyrir stóru viðskiptabankanna þrjá í hinum svokölluðu endurhverfu viðskiptum. Ríkissjóður afskrifaði 175 milljarða króna vegna þeirra viðskipta á ríkisreikningi ársins 2008.

Í nýju frumvarpi að lögum um fjármálafyrirtæki verður innleidd Evrópusambandstilskipum sem meinar slíkum fyrirtækjum að núvirða skuldir sínar til að auka eiginfjárhlutfall sitt á þann hátt sem VBS gerði fyrr á þessu ári. Þegar lögin taka gildi þá verður VBS að taka núvirðinguna til baka. Það þýðir að skuldir bankans munu hækka og eignir hans minnka í samræmi við það.