Hinn þekkti skortsali Jim Chanos er byrjaður að veðja gegn hefðbundnum gagnaversfyrirtækjum sem sæta nú aukinni samkeppni frá stórum tæknifyrirtækjum sem hafa til þessa verið þeirra stærstu viðskiptavinir. Financial Times greinir frá.

Chanos, sem er hvað þekktastur fyrir að spá fyrir um fall orkufyrirtækisins Enron, er sækist nú eftir nokkur hundruð milljóna dala fjármögnun fyrir sjóð sem mun taka skortstöður í fasteignasjóðum sem einblína á gagnaver.

„Það er stóra skortstaðan okkar núna,“ er haft eftir Chanos. „Sagan er í stuttu máli sú að þrátt fyrir skýið sé að vaxa þá er skýið óvinur þeirra en ekki viðskiptavinur þeirra. Verðmæti eru að byggjast upp hjá skýjafyrirtækjum en ekki gagnaverum sem eru í raun lítið annað en vöruskemmur.“

Sjá einnig: Stórhagnaðist á Wirecard skortsölu

Þrjú stærstu skýjaþjónustufyrirtækin; Amazon Web Services, Google Cloud og Microsoft Azure eru langstærstu notendur gagnavera í heiminum. Kenning Chanos gengur út á að þessir „ofurskalarar“ vilji fremur byggja eigin gagnaver heldur en að flytja starfsemi sína yfir til núverandi gagnavera. Í þeim tilvikum þegar þeir útvisti hýsingu þá sé yfirleitt lítill ávinningur í því fyrir samstarfsaðilann.

„Stóra vandamálið fyrir fasteignasjóði utan um gagnaver er tæknileg úrelding,“ sagði Chanos. „Þrír stærstu viðskiptavinir þeirra eru stærstu keppinautar þeirra. Þegar stærstu samkeppnisaðilarnir þínir eru þrír af grimmustu keppinautum heims, átt þú í vanda.“