Verði fyrirliggjandi frumvörp ríkisstjórnarinnar um breytingar á kvótakerfinu að lögum mun það hafa grundvallaráhrif á Landsbankann og stöðu hans gagnvart gamla Landsbankanum. Skuldabréf nýja bankans til þess gamla, sem stendur í 282 milljörðum, er með ákvæði um að að skuli tryggt með veðum í sjávarútvegi og að veðhlutfallið megi ekki fara undir 30%.

Fari hlutfallið undir þessi mörk getur gamli bankinn gjaldfellt skuldabréfið, en að sama skapi getur nýi bankinn komið í veg fyrir það með því að greiða inn á bréfið. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum mun hlutfallið fara undir þessi mörk ef lögin fara óbreytt í gegnum þingið, en að gripið verði til aðgerða til að koma í veg fyrir að gjaldfellingarákvæðið verði virkt. Landsbankinn sagði í umsögn sinni um frumvörpin að hann myndi þurfa að afskrifa um 31 milljarð króna vegna ætlaðs taps á útlánum til sjávarútvegsfyrirtækja.