Óhætt er að segja að ritstjóri Nyhedsavisen, fríblaðs Dagsbrúnar í Danmörku, fari hressilega af stað í fyrsta pistli sínum á vef blaðsins, sem opnaður var í morgun.

Ritstjórinn, David Trads, segist þar í upphafi vilja nefna þrennt sem komi til með að verða að veruleika fyrir lok yfirstandandi árs:

1. Nyhedsavisen verður langmest lesna pappírsdagblað Danmerkur.
2. Avisen.dk verður meðal fimm mest heimsóttu vefsvæða landsins.
3. Blaðamenn okkar verða meðal þeirra sem koma til álita við afhendingu Cavling-verðlaunanna. [Dönsku blaðamannaverðlaunin.]

Trads segist síðan sannfærður um að 100 blaðamenn Nyhedsavisen eigi eftir að búa til betra dagblað en áskriftarblöðin dönsku.

Hann gerir lítið úr nýju fríblöðunum tveimur, Dato og 24Timer (sem útgefendur hefðbundinna áskriftarblaða standa að) og hendir gaman að því að ritstjórar þeirra stæri sig af því að hægt sé að lesa þau á einni mínútu eða jafnvel 24 sekúndum.

Segist Trads engar áhyggjur hafa af samkeppni frá slíkum blöðum. Nyhedsavisen ætli ekki að láta sér nægja "smáblaðamennsku", veðurfréttir og sjónvarpsdagskrá heldur verði það efnismikið blað og í samkeppni við stóru hefðbundnu áskriftarblöðin.

Þau blöð sakar hann aftur á móti um að stunda áróður, dulbúinn sem blaðamennsku, gegn Nyhedsavisen til að þjóna eigendum sínum. Nefnir hann Jyllands Posten sérstaklega til sögunnar.

Ekki hefur verið tilkynnt hvenær Nyhedsavisen kemur fyrst út en Trads segir að það verði "þegar laufin byrja að falla af trjánum - sem sagt von bráðar!"