Vegagerðin hefur eytt 2,4 milljörðum króna meira heldur en henni var heimilt á fyrstu sex mánuðum ársins. Þetta kemur fram í ársfjórðungsuppgjöri ríkissjóðs sem sýnir stöðu fjármála innan ársins hjá eintökum ríkisaðilum í A-hluta ríkissjóðs með hliðsjón af veittum fjárheimildum.

Þar kemur fram að Vegagerðin hafi eytt 9.045 milljónum króna á fyrri helmingi ársins. Gjaldheimildir tímabilsins hljóðuðu hins vegar upp á 7.403 milljónir króna, og telur frávikið því 1.643 milljónir króna á tímabilinu. Sé hins vegar tekið tillit til fluttra fjárheimilda frá fyrra ári, þegar stofnunin fór 762 milljónir fram úr heimildum, telur frávikið alls 2.405 milljónir króna.

Landspítalinn hefur farið fram úr heimildum sem nemur 39 milljónum króna það sem af er árinu. Sé hins vegar tekið tillit til fluttra fjárheimilda frá fyrra ári hefur hann farið fram úr heimildum sem nemur 1.520 milljónum króna.

Þá hefur Ríkislögreglustjóri farið langt fram úr fjárheimildum sínum það sem af er ári. Hefur hann eytt 862 milljónum króna, en hafði heimild til þess að eyða 649 milljónum króna á tímabilinu. Er frávikið því neikvætt um 213 milljónir króna, en með fluttum fjárheimildum frá fyrra ári er það neikvætt um 228 milljónir króna.

Sú stofnun sem mest hefur farið fram úr fjárheimildum það sem af er ári er Námsmatsstofnun. Fékk hún heimild til að eyða 81 milljón króna, en eyddi hins vegar 159 milljónum króna, eða 96% meira en heimilt var. Fluttar fjárheimildir frá fyrra ári voru aftur á móti jákvæðar um 9 milljónir króna og hefur stofnunin því samtals eytt 68 milljónum meira en heimilt var.

Árshlutauppgjör ríkissjóðs má sjá hér.