Dregið er úr gjaldheimtu á sjávarútvegsfyrirtækin samkvæmt nýrri sáttatillögu sem meirihluti atvinnuveganefndar Alþingis lagði fram í dag. Með tillögunni er verið að viðurkenna alla þá gagnrýni sem sett hefur verið fram í málinu segir þingmaður Sjálfstæðisflokks í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Atvinnuveganefnd Alþingis hefur síðustu vikur fjallað um umdeild kvótafrumvörp sjávarútvegsráðherra, meðal annars hugmyndir um veiðigjöld sem áttu að skila ríkissjóði 20 milljörðum á ári. Í morgun var kynnt sáttatillaga í málinu. Björn Valur Gíslason er talsmaður nefndarinnar í sjávarútvegsmálum og segir að í grófum dráttum sé verið að fallast á að það sé ágreiningur um forsendur gjaldsins. Þeim ágreiningi sé vísað til veiðigjaldanefndar, sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði sett á laggirnar og er ætlað að skila tillögum sínum um úrlausn þess máls áður en fiskveiðiárið 2012 - 13 tekur gildi.

Veiðigjaldið á að skila um 15 milljörðum á næsta ári - og hefur því lækkað um fjórðung frá fyrri hugmyndum. Veiðigjald, þar sem fyrirtæki greiða hlutfall af hreinum hagnaði sínum, verður síðan tekið upp í kjölfarið. Fleiri breytingar eru gerðar - til að mynda fá fyrirtæki sem tekið hafa lán fyrir kvótakaupum, aflsátt af veiðigjaldinu næstu árin.

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir ekki nógu langt gengið. Segir hann að með tillögu nefndarinnar sé í raun verið að viðurkenna alla þá gagnrýni sem sett var fram á málið í upphafi.