Eigendur Bráðar, rekstrarfélags Veiðimannsins í Hafnarstræti hafa ákveðið að loka versluninni á haustmánuðum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en Bráð rekur einnig verslanirnar Veiðihornið í Síðumúla og Sportbúðina á Krókhálsi.

Albert Erlingsson stofnaði Veiðiflugugerðina við Lækjartorg árið 1938.  Árið 1940 flutti Albert starfsemina í Smjörhúsið Hafnarstræti 22.  Síðar var verslunin flutt í Hafnarstræti 5 þar sem hún hefur verið starfrækt um árabil.

„Það er því óhætt að fullyrða að saga Veiðimannsins sé samofin verslunarsögu miðborgarinnar í 70 ár,“ segir í tilkynningunni.

„Ákvörðunin um að loka versluninni var sársaukafull en erfitt hefur verið að horfa upp á hnignum miðbæjarins og samdrátt í verslun á sama tíma og aðrar verslanir fyrirtækisins blómstra sem aldrei fyrr,“ segir jafnframt.

Í tilkynningunni kemur fram að ekki er loku fyrir það skotið að Veiðimaðurinn verði opnaður á ný í gamla miðbænum „þegar borgaryfirvöld framtíðarinnar hafa áttað sig á því að miðborgin verður aldrei lifandi án blómlegrar verslunar og skapa starfsumhverfi til að svo megi verða,“ eins og það er orðað.

Þá bjóða eigendur Veiðimannsins viðskiptavini hjartanlega velkomna í sjötugan Veiðimanninn þar til í haust er versluninni verður lokað.

Þá kemur fram að á sama tíma verður blásið til sóknar á öðrum vettvangi. Verslunin Veiðihornið Síðumúla 8 stækkar umtalsvert þegar öll neðri hæð hússins verður tekin í notkun og gagngerum endurbótum á Sportbúðinni Krókhálsi 5 verður lokið í vetur. Auk þess verður lögð enn frekari áhersla á sístækkandi netverslun fyrirtækisins sem þjónar öllum landsmönnum, segir í tilkynningunni.