Öðrum ársfjórðungi lauk í gær, en á tímabilinu lækkaði Úrvalsvísitalan um 13% og stóð í 4.377 stigum við lokun markaða í gær. Lækkunin er í meiri takt við það sem hefur átt sér stað á öðrum norrænum hlutabréfamörkuðum á fjórðungnum.

Til samanburðar lækkaði einnig OMX-fjármálavísitalan 16,4% á fjórðungnum. Mikill þrýstingur hefur verið á gengi krónunnar á fjórðungnum, en við lokun markaða í gær stóð gengisvísitalan í 159,3 stigum. Vísitalan sló þó met alla þrjá mánuði fjórðungsins.

Miklar sveiflur voru á skuldabréfamarkaði á fjórðungnum. Ávöxtunarkrafa íbúðabréfa hækkaði milli fjórðunga, en framboð slíkra bréfa mun aukast í náinni framtíð samfara aðgerðum ríkisstjórnarinnar á húsnæðismarkaði.

Ávöxtunarkrafa stuttra ríkisbréfa hefur lækkað og gengi þeirra þar með hækkað. Lengri bréfin hafa sýnt svipaða þróun.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .