Donald Kohn, aðstoðarbankastjóri bandaríska seðlabankans, telur að sumir bankar muni tilkynna um „veik“ uppgjör og að þeir neyðist til þess að afskrifa fleiri eignir á meðan þeir vinna með ófullnægjandi eiginfjárstöðu til þess að verja sig gegn afskriftaþörfinni.

Þetta kom fram í vitnisburði hans fyrir bankanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær. Hann sagði jafnframt að tap fasteignaverktaka „hljóti að aukast enn frekar“ og að „veikar efnahagsstoðir“ kunni að auka greiðsluvandræði neytenda, eigenda greiðslukorta og fyrirtækja.

Kohn ítrekaði ákall forráðamanna bandaríska seðlabankans um að bankar og fjármálastofnanir bæti eiginfjárstöðu sína en í vitnisburði sínum fyrir nefndinni sagði hann þá ekki hafa aukið hana nægilega mikið til þess að geta haldið við í fyrirsjáanlegt tap vegna eitraðra veða og eigna.

Samkvæmt könnun Bloomberg-fréttaveitunnar þá hafa stærstu fjármálafyrirtæki tapað 386 milljörðum Bandaríkjadala frá því að lánsfjárkreppan skall á. Á sama tíma hafa þau aðeins sótt sér 283 milljarða dala til þess að stemma stigu við tapinu.