Gengi krónunnar hefur veikst um 1,8% frá í síðustu viku. Mesta veikingin er gagnvart evru, sem kostar nú 151 krónu og hefur verðið hækkað um 2,1% á einni viku.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag, að á þessum tíma í fyrra hafi gengi krónunnar verið að styrkjast og hafi sú þróun haldist fram til loka október. Þróunina mátti helst rekja til árstíðarbundinnar sveiflu í gjaldeyrisstraumum vegna ferðaþjónusta og mikilla gjaldeyristekna sjávarútvegs á haustdögum.

„Sveiflan nú í sumar hefur verið mun sterkari en í fyrra og er ljóst að árstíðaráhrifin hafa ekki vera ein á ferð, heldur aðrir kraftar sem koma þar við sögu og má reikna með að þeir séu á ferðinni nú. Hreyfing krónunnar nú er athyglisverð þar sem svo snarpar veikingarhrinur hafa síðustu ár aðeins komið fram á vetrarmánuðum, þegar gjaldeyrisflæði tengt vöru- og þjónustujöfnuði hefur verið með óhagstæðasta móti og við hefur bæst útflæði tengt vaxtagreiðslum og/eða gjalddögum lána,“ segir í Morgunkorninu.

Greining Íslandsbanka segir veikingu krónunnar nú örlítið óheppilega fyrir Seðlabankann, sem er nýbúinn að gefa út hagspá sem gerir ráð fyrir að gengi evru verði að jafnaði 150 krónur fram til loka árs 2014.

Í Morgunkorninu segir:

„Þó vitaskuld sé litlar ályktanir hægt að draga af einnar viku gengisþróun er hreyfing síðustu daga áminning um það hversu lítið þarf til þess að veikja krónuna, jafnvel á þeim árstíma þegar gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamennsku er hvað mest. Í öllu falli er það okkar mat að forsenda Seðlabankans um gengi krónu sé of bjartsýn.“