„Ég veit ekki hvort einhver hafi gert á því rannsókn hvort sé verri upplifun, að þola innbrot þjófs eða innrás lögreglu inn á heimiili. Fólk er væntanlega líklegra til að verjast árás glæpamanna, en vald lögreglunnar er svo yfirþyrmandi að engum dettur í hug að streitast þar á móti.“ Svo lýsir Björgólfur Thor Björgólfsson upplifun sinni á handtöku föður síns, Björgólfi Guðmundssyni, í tengslum við rannsóknina á falli Hafskipa. Ný bók Björgólfs Thors, Billions to Bust - and Back, er komin út.

Í ítarlegu viðtali, sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag, segir Björgólfur Thor að þessi atburður hafi haft mjög mótandi áhrif á sig. „Þetta gerði mig tortryggnari. Þetta bjó líka til ákveðna minnimáttarkennd í mér, bæði fyrir mína hönd og fyrir hönd fjölskyldunnar. Þegar þú ert brotinn niður og niðurlægður, eins og gerist þegar fjölskyldufaðirinn er tekinn og læstur inni svo vikum skiptir, þá herðir það þig. Ég þurfti að sanna fyrir sjálfum mér og öðrum að þarna hefði verið brotið á okkur. Mjög lengi neitaði ég því að, líka gagnvart sjálfum mér, að hann hefði haft nokkur áhrif á mig, en auðvitað var það rangt og það var ekki fyrr en nýlega að ég hef getað viðurkennt það.“