Stórir markaðsaðilar seldu eftir hádegi í dag verðtryggð skuldabréf og keyptu lengri óverðtryggð skuldabréf í talsverðu magni. Það felur í sér væntingar markaðsaðila um að verðbólgan verði ekki eins mikil og þeir höfðu gert ráð fyrir, horft fram á veginn.

Þessi hreyfing á markaðnum hefur verið stöðug frá því í lok janúar síðastliðnum þegar Hagstofan birti verðbólgutölur sem voru talsvert undir væntingum markaðarins.. Verðbólguálag hefur á þeim tíma farið frá því að vera 4,95% til þriggja ára í um 3,50%, og lækkað úr 4,40% í 3,60% mælt til 7 ára. Er það í samræmi við þróun í  hagkerfisinu að eftirspurn og ráðstöfunartekjur halda áfram að falla, ekki er útlit fyrir að útsölur gangi að öllu til baka fyrir næstu verðbólgumælingar, krónan, einkum á móti evru, hefur verið að styrkjast nokkuð undanfarið  auk þess sem fasteignamarkaður hefur verið í lægð undanfarnar sex vikur eins og fram kom í Viðskiptablaðinu í síðustu viku. Von er á nýjum veltulölum á þeim markaði í dag.

[Uppfært 16.40]