Stóru bankarnir þrír hafa nú allir skilað uppgjöri fyrir fyrri helming ársins og ekki verður annað sagt en að uppgjörin virðist traustvekjandi; hagnaður á bilinu 8 til 24 milljarðar króna, vaxtamunur traustur og eiginfjárhlutföllin góð. Eins og sjá má af meðfylgjandi töflu, og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, hagnaðist Landsbankinn – stærsti banki landsins þegar litið er til efnahagsreiknings – umtalsvert mikið meira en hinir bankarnir en munurinn skýrist nánast allur af gengisbreytingum eigna dótturfélagsins Horns annars vegur og hagnaði af aflagðri starfsemi hins vegar. Í síðarnefnda tilvikinu munar langmest um sölu bankans á Vestia og Icelandic Group til Framtakssjóðs Íslands, sem er í eigu lífeyrissjóðanna. Eins og fram kemur í nýlegri greiningu IFS á uppgjörum bankanna virðast bankarnir sæmilega í stakk búnir til þess að mæta verri tímum sem framundan gætu orðið, þeir virðast í góðum holdum eins og segir í greiningu IFS, en þó virðast ýmsar blikur á lofti. Þannig hlýtur það að teljast áhyggjuefni að óreglulegir liðir séu jafn stór hluti af hagnaðnum og raun ber vitni auk þess að bankarnir eiga allir meira af verðtryggðum eignum en skuldum. Þar af leiðandi hagnast bankarnir á verðbólgunni, sem þrátt fyrir allt verður að teljast frekar ótraust tekjulind. Þetta mikla vægi óreglulegra liða og verðbólgu hlýtur að vekja spurningar um sjálfbærni rekstrarins til lengri tíma litið.

Há eiginfjárhlutföll

Hinar miklu rekstrartekjur, óreglulegar eður ei, valda því einnig að kostnaðarhlutföll bankanna virðast mun lægri en þau eru í raun og er það mat IFS að næstu stóru verkefni stjórnenda bankanna felist í umtalsverðum niðurskurði rekstrarkostnaðar. Uppsagnir Arion banka á dögunum eru liður í slíkum aðgerðum og segir greining IFS ekki ólíklegt að hinir bankarnir muni feta svipaða braut á næstunni. Eins og fram kemur í upphafi og sést berlega í meðfylgjandi töf lu eru eiginfjárhlutföll bankanna allra há, vel yfir þeim 16% sem Fjármálaeftirlitið hefur sett sem tímabundið lágmark. Þetta verður að teljast eðlilegt í ljósi þess að vanskil eru töluverð í bankakerfinu auk þess sem búast má við magrari tímum fari svo að hin alþjóðlega efnahagslægð berist hingað til lands á nýjan leik. Að sama skapi má búast við því að bankanir muni vinna markvisst að því á næstu misserum að lækka eiginfjárhlutföll sín enda telst of hátt eiginfjárhlutfall banka samfélagslega óhagkvæmt þar eð féð er ekki í vinnu annars staðar. Greining IFS nefnir til dæmis þann möguleika að bankarnir greiði út aukinn arð til eigenda sinna, t.d. í tengslum við skráningu á hlutabréfamarkað, en einnig er ljóst að fyrr eða síðar munu bankarnir þurfa að fjármagna sig á skuldabréfamarkaði. Hvenær það verður mun þó framtíðin leiða í ljós.