Flugvél Ferðaskrifstofu Íslands sem átti að fara til Tenerife kl. 7 í morgun fór í loftið fyrir nokkrum mínútum samkvæmt upplýsingum frá Keflavíkurflugvelli, tæpum 15 klst á eftir áætlun.

Eins og fram hefur komið í dag er unnið að endurfjármögnun Ferðaskrifstofu Íslands og á Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri ferðaskrifstofunnar, von á því að tilkynnt verði um nýjan fjársterkan aðili að félaginu eftir helgi.

Frá því var greint í morgun að flugvélinni hefði seinkað vegna rekstrarerfiðleika Ferðaskrifstofu Íslands og sagði Þorsteinn í samtali við Viðskiptablaðið að seinkunin hafi óbeint tengst viðræðum um endurfjármögnun félagsins, en vill ekki tilgreina nánar hvernig.

Hann fullyrti einnig að ekki verði fleiri raskanir á flugi eða ferðum á vegum félagsins vegna þessa.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 kom fram að Ferðaskrifstofa Íslands hefði átt í viðræðum við Iceland Express um kaup þess síðarnefnda á meirihluta í félaginu.

Ferðaskrifstofa Íslands á og rekur Sumarferðir, Plúsferðir og Úrval-Útsýn.