Rússneski auðjöfurinn Dmitry Grishin vill ekki sætta sig við hefðbundnar ljósmyndir í sínu eigin brúðkaupi. Hann dreymir um að vélmenni muni getað svifið um fyrir ofan gestina og myndað allar hreyfingar, frá öllum mögulegum sjónarhornum.

Grishin er framkvæmdastjóri rússneska samfélagsmiðilsins Mail.ru. Hann hefur nú stofnað fjárfestingafyrirtæki, Grishin Robotics, sem staðsett er í New York. Sjálfur lagði Grishin 25 milljónir dollara í fyrirtækið. Hlutverk þess verður að finna efnileg frumkvöðlafyrirtæki sem vinna að þróun vélmenna. Fyrirtækið mun leggja áherslu á vélmenni sem þjónusta neytendur frekar en vélmenni sem ætluð eru til notkunar í iðnaði.

Grishin segist vonast til þess að fyrirtækið muni geta fundið 10-20 fyrirtæki árlega og styrkt þau um 500.000 dollara hvert. Það er andvirði um 62 milljóna króna.

Íslenskir frumkvöðlar mega því jafnvel líta vonaraugum til Rússlands á næstunni og geta reynt að ganga í augun á Dmitry Grishin.