Meðalvelta á dag á gjaldeyrismarkaði hefur numið rúmum 33 milljörðum króna það sem af er þessari viku og hefur lækkað mikið á milli vikna.

Með lækkuninni er veltan komin niður á svipað stig og hún var fyrstu tvo mánuði ársins, en í mars og fyrstu daga þessa mánaðar var meðalveltan mun hærri. Þessa þróun má sjá á meðfylgjandi súluriti, sem byggt er á tölum úr Vegvísi Landsbankans.

Mikil velta og veiking í dymbilvikunni

Í mars tvöfaldaðist meðalveltan frá því sem verið hafði og veltan fór hæst í tæpa 126 milljarða króna einn daginn í dymbilvikunni.

Meðalveltan á dag í þeirri viku var yfir 107 milljarðar króna á dag, en þá viku veiktist krónan um tæp 11%. Strax eftir páska styrktist krónan svo um tæp 5% og er nú í svipuðum styrk eftir þó nokkrar sveiflur, fyrir utan síðustu daga þegar krónan hefur verið tiltölulega stöðug.