Velta á fasteignamarkaði í fyrstu viku ársins 2015 var öllu minni en á sama tímabili í fyrra, eða 7.036 milljónir króna borið saman við 9.628 milljónir.

Sömu sögu er að segja um fjölda kaupsamninga sem voru 155 í vikunni borið saman við 173 í fyrstu viku 2014. Meðalupphæð á hvern samning var að auki minni, eða 45 milljónir króna á samning borið saman við 56 milljónir. Þetta kemur fram í markaðsfréttum Þjóðskrár.

Sé litið til lengra tímabils snýst myndin hins vegar við. Þannig er meðalvelta á fasteignamarkaði seinustu tólf vikurnar 5.704 milljónir króna borið saman við 5.116 milljónir. Velta á fasteignamarkaði undanfarnar tólf vikur var þannig 11,5% meiri heldur en á sama tímabili fyrir ári síðan.