Óvenju mikil umsvif voru á fasteignamarkaði í síðustu viku og gengið var frá 206 kaupsamningum, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Af þessum samningum voru 160 samningar um eignir í fjölbýli, 30 samningar í sérbýli og 16 samningar í annars konar eignum.

Fasteignaverð hækkaði um 0,5% í janúar síðastliðnum en óvenju rólegt var á fasteignamarkaði í þeim mánuði.

Oft fylgja hækkanir miklum umsvifum á fasteignamarkaði og því gæti mikil velta að undanförnu bent til vaxandi hækkunarþrýstings á fasteignamarkaði, segir greiningardeildin.

Meðalupphæð samnings nam 23,6 milljónum króna. Svo virðist sem umsvif á fasteignamarkaði hafa tekið allverulega við sér á síðustu vikum eftir nokkra lægð í janúar, segir greiningardeildin.

Meðal fjöldi kaupsamninga hefur verið um 197 að meðaltali á viku en til samanburðar má nefna að þegar umsvifin voru hvað mest haustið 2004 var gengið frá 250 kaupsamningum á viku.