Velta í viðskiptum í Kauphöllinni á árinu sem er að líða jókst um 3% frá fyrra ári, samkvæmt árslokayfirliti Kauphallarinnar.

Þar kemur fram að aukninguna megi fyrst og fremst rekja til meiri veltu með skuldabréf sem stendur nú fyrir 99% af heildarveltu Kauphallarinnar.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 2.840 milljörðum á árinu og 25 milljörðum með hlutabréf. Skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar hækkuðu á bilinu 6,5 til 22%.

Úrvalsvísitalan OMXI6 hækkaði um 14,6%, en hafði lækkað um 18,5% árið 2009.

Á skuldabréfamarkaði voru mest viðskipti með óverðtryggð ríkisbréf (1.688 milljarðar) en á hlutbréfamarkaði með bréf Marels (11,9 ma.), BankNordik (6,6 ma.) og Össurar (6,1 ma.).

Dagleg velta með skuldabréf nam að meðaltali 11,4 milljörðum króna á árinu, samanborið við 11 milljarða í fyrra.

Hins vegar dróst hlutabréfaveltan saman um helming en meðaltal daglegrar veltu með hlutabréf var á árinu um 102 milljónir króna, samanborið við 203 milljónir í fyrra.

Landsbankinn átti mesta hlutdeild á hlutabréfamarkaði í ár eða 28%. Í fyrra átti Arion banki mestu hlutdeildina, einnig 28%.

Hins vegar átti MP Banki mestu hlutdeildina á skuldabréfamarkaði, líkt og í fyrra, með 28% hlutdeild.

Segir 10 fyrirtæki hafa boðað komu sína á markað á næsta ári

„Við getum vel unað við ársuppskeru 2010, þrátt fyrir erfið skilyrði og að áætlanir gengju ekki allar eftir,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, í yfirlitinu.

„Nýskráningar fyrirtækja á hlutabréfamarkað létu á sér standa, en Úrvalsvísitalan stóð sig samt á árinu með 15% hækkun, sem er í takt við þá þróun sem á sér stað á mörkuðum á Norðurlöndunum. Viðskipti á skuldabréfamarkaði héldu vel í við síðasta ár og árið var skuldabréfafjárfestum gjöfult. Við teljum að það séu stórlega vannýtt tækifæri á bæði skuldabréfamarkaði og hlutabréfamarkaði fyrir traust fyrirtæki og fjárfesta, en á nýju ári hafa um 10 fyrirtæki boðað komu sína á hlutabréfamarkað.