Virðisaukaskyld starfsemi hefur aukist um 13% á milli ára ef horft er til júlí og ágústmánaðar hvors árs, en hafa verður í huga að nú eru fleiri atvinnugreinar en áður virðisaukaskattskyldar.

Nam veltan 749 milljörðum króna þessa mánuði árið 2016 meðan hún var 663 milljarðar á sama tíma árið 2015.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar , en þar eru jafnframt leiðréttar tölur fyrir maí og júní. Var veltan áður talin vera 750,4 milljarðar, sem væri 7% hækkun frá sömu mánuðum árið 2015, en nú megi ráða af nýjum tölum að veltan hafi verið 752,0 milljarðar, sem er 8% hækkun frá sömu mánuðum.

Ef horft er hins vegar til síðustu 12 mánuði nemur veltuaukningin 7% samanborið við 12 mánuði þar á undan.

Eins og áður segir er hluti af skýringunni á aukningunni að um áramótin voru nokkrar atvinnugreinar gerðar virðisaukaskattskyldar sem áður voru undanþegnar.

Einnig hefur áhrif á tölurnar að á sama tíma og áfengi var fært úr efra þrepi virðisaukaskatts í það neðra voru vörugjöld á áfengi hækkuð, en skatturinn leggst ofan á þau.