Bensínverð hefur hækkað í Bandaríkjunum. Meðalverð á einu galloni (ca. 3,9 lítrar) af bensíni er nú 4 bandaríkjadalir.

Nýgerð könnun sýnir þetta en frá henni er greint á fréttavef Reuters.

Fyrir mánuði stóð verðið í 3,67 bandaríkjadölum fyrir gallonið en það var 3,10 dalir fyrir ári síðan.

Olíuverð hækkaði sem aldei fyrr síðastliðinn föstudag og verðið á olíutunnu fór í 139 bandaríkjadali. Hefur þetta haft víðtæk áhrif á bandarískt efnahagslíf.

Birtist það meðal annars í minnkandi sölu á jeppum og sportbílum. Bandaríkjamenn skipta nú óðum út bensínþyrstum pallbílum fyrir sparneytnari bíla. Segja menn að ástandið líkist því sem það var á áttunda og níunda áratug síðustu aldar, í olíukreppunni svokölluðu.

Þó svo Bandaríkjamenn kvarti nú sáran yfir þessu hækkandi eldsneytisverði þá er ljóst að dropinn er allt að tvöfallt dýrari í löndum Evrópu og víðar.