Viðmælendur Viðskiptablaðsins eru á einu máli um að líkur séu á að þenslan á markaði fyrir stangveiðileyfi í íslenskum laxveiðiám haldi áfram á næsta ári, að minnsta kosti. Laxveiðin í ár hefur gengið feiknarlega vel, en bráðabirgðatölur Veiðimálastofnunar benda til þess að lokatala yfir veidda laxa á stöng sé um 53.500 laxar, eða um 7.600 löxum hærri en árið 2004 og 52,4% hærri en meðalveiði áranna 1974-2004. Þetta kemur fram í úttekt Viðskiptablaðsins í dag.

Eggert Skúlason laxveiðimaður segir að verð veiðileyfa sé raunar fyrir löngu orðið of hátt fyrir hinn almenna íslenska laxveiðimann. "Þeir einu sem mér finnst halda í horfinu eru stjórnendur SVFR. Annars eru menn að bjóða upphæðir í þessar stærstu ár sem talist hefðu óhugsandi fyrir nokkrum árum. Ég óttast að þessi þróun haldi áfram næstu ár," segir hann.

Árni Baldursson, forstjóri Lax-ár, segir að hlutfall útlendinga í veltu fyrirtækisins sé um það bil 75%. Íslensk fyrirtæki séu hluti af þeim fjórðungi sem af gangi. Hann gefur því lítið fyrir þá tilgátu að íslenskir bankar og önnur stórfyrirtæki haldi verðinu á laxveiðileyfum uppi. "Nei, ég hef ekki orðið var við það. Auðvitað er kjörið fyrir fyrirtæki að nota þessar ferðir til að halda fundi og þjappa fólki saman. En ég hef ekki orðið var við aukningu hjá íslenskum fyrirtækjum."

Sjá nánar í úttekt Viðskiptablaðsins í dag.