Verð á mjólkurkvóta hefur aldrei verið hærra en um þessar mundir og eru dæmi þess að kvóti hafi verið að seljast allt upp undir 400 krónur lítrinn. Að sögn Garðars Eiríkssonar, skrifstofustjóra hjá Mjólkurbúi Flóamanna, hefur reyndar heldur hægt á verðhækkunum undanfarið eftir miklar hækkanir undanfarin misseri. "Það má segja að eftirspurn sé ríkjandi á markaði og því freistandi fyrir marga að selja frá sér kvóta," sagði Garðar í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn Garðars, sem hefur haft milligöngu um kvótakaup fyrir MBF, þekkir hann eitt til tvö dæmi þess að kvóti hafi verið að fara á 390 til 395 krónur kílóið og þá þekkir hann viðskipti upp á 50.000 lítra þar sem lítrinn var seldur á 380 krónur. Þetta er mun hærra verð en menn voru að sjá síðasta vor en þá fór lítraverðið upp í um 280 krónur , þegar hæst var. Mjólkurkvótinn hefur haft tilhneigingu til að hækka þegar kemur fram á vorið. Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá Bændasamtökunum var meðalverð síðustu 500.000 lítra samkvæmt yfirliti samtakanna 315 kr. á lítra. Þar kom fram að nokkuð fjörug sala hafði verið það sem af er ári og í janúar skiptu tæplega 700 þúsund lítrar um hendur. Samkvæmt upplýsingum Bændasamtakanna var samsvarandi meðalverð í ágúst síðastliðnum 263 krónur. Meðalverð Bændasamtakanna hefur þannig hækkað um 20% á tímabilinu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.