Kínverjar eru þessa dagana að flytja inn verðbólgu vegna gegndarlausrar peningaprentunar í Bandaríkjunum. Þetta segir Chen Deming, viðskiptaráðherra Kína, í viðtali við China Business News, sem er haldið úti á vegum stjórnvalda í Kína.

Deming segir að mikil dollaraútgáfa Seðlabanka Bandaríkjanna geri Kína erfitt fyrir. „Eins og staðan er hafa fyrirtæki gert áform og reiknað með auknum sveiflum og hærri launakostnaði. En þar sem útgáfa á dollurum er komin úr böndunum og heimsmarkaðsverð á hrávöru fer hækkandi stendur Kína frammi fyrir því að vera að flytja inn verðbólgu. Sem svo veldur fyrirtækjum erfiðleikum,“ segir Chen.