Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir ríkisstjórnina ekki eiga sök á verðbólgu síðustu ára, heldur hafi viðskiptabankarnir hafið þensluna með innrás sinni á fasteignalánamarkaðinn síðsumars 2004.

Aðspurður hvort að rætur verðbólgunnar liggi ekki í "90% húsnæðislánum" sem Framsóknarflokkurinn bauð upp á segir Jón það ekki vera rétta söguskýringu. "Það sem gerðist var að Kaupþing fór beint inn á markaðinn með þeirri sérstöku markaðsyfirlýsingu að bankinn ætlaði að brjóta Íbúðalánasjóð á bak aftur. Hins vegar hefur komið fram aftur og aftur í könnunum að almenningur Íbúðalánastjóð gegna mikilvægu hlutverki. Sjóðurinn veitir öllum lán á sömu kjörum og hvar sem er á landinu, en velur ekki úr umsækjendum eins og viðskiptabönkunum er frjálst að gera," segir hann.

Jón segir nýja verðbólgumælingu Hagstofunnar vera ánægjulega, en hún sýnir að verðbólga er farin að nálgast markmið Seðlabankans og er nú 5,3% miðað við tólf mánaða tímabil. Hann segir ríkisstjórnina hafa lagt áherslu á að vinna að hjöðnun jafnt og þétt en ekki í rykkjum - og að hún sé að ná árangri í sínum aðgerðum.

Hann segir Framsóknarmenn vera vígreifa og bjartsýna um þessar mundir. "Við komum ánægð frá flokksþingi okkar í mars, sem tókst einkar vel, og mikil samstaða er innan flokksins. Almenn ánægja ríkir um kosningastefnuskrána og góður hugur er í fólki," segir Jón.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.