Það er ekki ofsögum sagt að stefnusmiðir Evrópska seðlabankans og Englandsbanka eigi úr vöndu að ráða um þessar mundir. Á sama tíma og vísbendingar um dökkar efnahagshorfur hrannast upp benda mælingar til þrálátrar verðbólgu.

Evrópski seðlabankinn ákvað að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 4,25% og hafa þeir ekki verið hærri í sjö ár. Vextir voru hækkaðir í júlí með þeim skilaboðum að nauðsynlegt væri að koma í veg fyrir að víxlverkanir launa- og verðlagshækkana kveiktu verðbólgubál á evrusvæðinu. Verðbólga hefur aukist mikið á evrusvæðinu í ár vegna hækkandi orkuverðs og í júlímánuði náði hún sextán ára hámarki þegar hún mældist í 4%. Hins vegar virðist hún hafa hjaðnað í síðasta mánuði en samkvæmt breska blaðinu Financial Times mældist hún þá 3,8%. Verðbólgumarkmið Evrópska seðlabankans er „undir en nálægt“ 2%.

Flestir sérfræðingar búast við að verðbólga lækki sjálfkrafa á evrusvæðinu í ljósi þeirrar staðreyndar að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um 26% frá því í júlímánuði og vegna þess að samdráttur í hagvexti á evrusvæðinu á öðrum fjórðungi hlýtur að leiða til minnkandi eftirspurnar í hagkerfum á evrusvæðinu. Hins vegar virðast forráðamenn seðlabankans tryggja að vaxandi verðbólguvæntingar taki sér ekki bólfestu meðal fyrirtækja og neytenda.

Samkvæmt Bloomberg-fréttaveitunni lýstu tveir bankaráðsmenn, þeir Axel Weber og Lucas Papademos, yfir í síðustu að vextir kynnu að verða hækkaðir enn frekar, skánuðu verðbólguhorfurnar ekki.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .