Í áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá árinu 2011 var gert ráð fyrir að heildarjöfnuður ársins 2014 yrði 17 milljarðar króna og 32 milljarðar árið 2015. Niðurstaða fjárlaganna nú og áætlana næstu ára eru langt frá þeim markmiðum, að sögn Hagfræðideildar Landsbankans. Deildin segir að þótt upphafleg markmið samstarfsáætlunar stjórnvalda og AGS hafi ekki náðst fari þróunin vonandi að snúast til réttrar áttar.

Hagfræðideildin segir í Hagsjá sinni í dag sem ber fyrirsögnina Staða ríkisfjármála áfram erfið , að samkvæmt fjáraukalögum muni halli á rekstri ríkisins á síðasta ári aukast úr 3,6 milljörðum króna sem áætlaður var í fjárlögum upp í 19,7 milljarða. Endanlegur halli á árinu 2013 muni verða meiri og var þannig boðaður um 25 milljarða króna halli í frumvarpi um fjáraukalög. Á síðustu árum hefur útgjaldaauki frá fjáraukalögum til ríkisreiknings verið verulegur þannig að endanlegur halli hefur verið mun meiri en fjáraukalög hafa gefið til kynna.

Hagfræðideildin segir ástæður þessarar miklu aukningar aðallega þá að tekjur hafa reynst talsvert minni en áætlað var en gjöldin einnig aðeins lægri.

Fjárlög þessa árs gera hins vegar ráð fyrir rúmlega 900 milljóna króna afgangi. Það er 500 milljónum meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Hagfræðideildin segir að eins og við mátti búast tók frumvarpið töluverðum breytingum í meðförum þingsins, framlög til heilbrigðismála voru aukin og fleira til. Þá var fallið frá lækkun barnabóta og gert er ráð fyrir framlengingu tímabundinnar heimildar til að taka út séreignarsparnað sem mun skila ríkissjóði auknum tekjum. Deildin segir að þrátt fyrir þetta sé ekkert fast í hendi og þurfi því að halda vel á spöðunum.

„Það hefur verið nær ófrávíkjanleg regla að útgjöld hafi aukist frá því sem gert er ráð fyrir í fjárlögum og nemur umframeyðslan 12% að meðaltali undanfarin 10 ár. Boðað hefur verið að frumvarp um opinber fjármál verði lagt fram á þessu þingi þar sem leitast yrði við að styrkja allt fjárlagaferlið og umgjörð fjárlaga.Vonandi eru ríkisfjármálin á réttri leið,“ segir hagfræðideildin.