Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,36% í desember frá fyrri mánuði samkvæmt nýrri verðmælingu Hagstofunnar.   Ársverðbólgan hækkar því lítillega milli mánaða og fer úr 5,2% í 5,3% í desember. Verðbólgan var heldur meiri en greiningardeild Arion banka gerði ráð fyrir en spá bankans hljóðaði upp á 0,2% hækkun VNV í desember.

Helsta frávikið frá spá greiningardeildar Arion banka var rífleg hækkun á mat og drykkjarvörum, einnig var hækkun flugfargjalda meiri en við áætluðum. Í markaðspunktum Arion banka segir að erfitt sé að gera sér fyllilega grein fyrir því hvað veldur svo mikilli hækkun á mat og drykkjarvörum nú, en væntanlega séu kaupmenn að nýta jólamánuðinn til að velta kostnaðarhækkunum fyrr á árinu yfir á neytendur. "Ef við horfum á matar- og drykkjarliðinn síðastliðin ár virðist desembermánuður nú nokkuð skera sig úr. Þó mátti sjá svipaðar hækkanir á matarliðnum á árunum 2007 og 2008, en þær mátti helst rekja til óstöðugleika í gengi krónunnar, sem varla er hægt að kenna um nú."