Verðbólga á Íslandi er meiri en í öðrum Evrópulöndum ef marka má tölur sem evrópska hagstofan birti í fyrradag. Í morgunkornum Íslandsbanka segir að verðbólgan hér á landi hafi í febrúar síðastliðnum verið 6,7% miðað við samræmdu vísitölu neysluverðs frá evrópsku hagstofunni. Af 27 Evrópulöndum var verðbólgan mest á Íslandi og hefur ekki verið meiri hér síðan í júní árið 2010.

Næstmest var verðbólgan í Ungverjalandi (5,8%) og svo í Eistlandi (4,4%).

Í morgunkornum segir að sé tekið mið af þróuninni síðasta árið hefur verðbólgan aukist langmest hér á landi en í febrúar fyrir ári mældist hún 2,3% m.v. samræmdu vísitöluna. Hefur hún þar með aukist um heil 4,4 prósentustig síðasta árið.

Á Evrópska efnahagssvæðinu var verðbólga nú í febrúar sú sama og í febrúar fyrir ári eða 2,9%.