Verðbólga mælist nú 6,5% og er það nokkuð meira en greiningaraðilar höfðu búist við. Verðbólgutölur sem þessar hafa ekki sést hér á landi síðan sumarið 2010 þegar verðbólga var á niðurleið. Hæst fóru verðbólgutölur í janúar árið 2009 þegar þær snertu 18,6% þakið.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun hækkaði vísitala neysluverðs um 0,28% á milli mánaða. Ef húsnæðisliðurinn er undanskilinn tölunum nemur hækkunin 0,05%.

Í umfjöllun Hagstofunnar kemur fram að vetrarútsölur séu í fullum gangi og hafi verð á fötum og skóm lækkað um 10,3%. Því til viðbótar lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 13,7%.

Á hækkaði verð á opinberri þjónustu um rúm 4 til tæplega 13%. Gjöld fyrir sorphiður, holræsi og vatn hækkuðu mest, um 12,6% á milli mánaða.

Greiningardeild Arion banka hafði reiknað með því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 0,1% á milli mánaða en hagfræðideild Landsbankans spáði 0,05% hækkun. Arion banki spáði 6,2% verðbólgu en hagfræðideild Landsbankans að hún færi í 6,3%. Báðar greiningardeildirnar spá því að verðbólga sé nú komin nálægt hæstu hæðum og muni draga úr henni hægt og bítandi eftir því sem líði á árið.

© vb.is (vb.is)