*

fimmtudagur, 23. janúar 2020
Innlent 29. október 2018 12:21

Verðbólgan hækkar mest vegna nýrra bíla

Vísitala neysluverðs hækkaði um nálega prósentustig í október og mælist verðbólgan 2,8% og stefnir í 3,5% í janúar.

Ritstjórn
Nýir bílar hækkuðu um 2,6% í októbermánuði sem ýtir undir hækkun verðbólgu.
Haraldur Guðjónsson

Verðbólgan mældist 2,8% í október en vísitala neysluverðs fyrir mánuðinn hækkaði um 0,57% að því er Hagstofa Íslands greinir frá. Án húsnæðis er hækkunin þó meiri eða 0,59% í október, þó vísitöluhækkunin síðustu tólf mánuðina, það er verðbólgan, án húsnæðis hefur einungis hækkað um 1,7%.

Mest var hækkunin á verði á nýjum bílum, eða um 2,6%, en reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,6% og matur og drykkjarvara hækkaði svo um 0,9%. Hins vegar lækkuðu veggjöld þar sem gjaldtöku í Hvalfjarðargöng hefur verið hætt.

Greining Íslandsbanka segir að þarna sé gengisfall krónu frá septemberbyrjun að segja til sín í þróun neysluverðsins. En einnig virðist hækkun íbúðaverðs, sér í lagi utan höfuðborgarsvæðisins, enn vera í nokkrum gangi.

Segir bankinn mælingu októbermánaða vera í takti við spár greiningaraðila, en áfram séu horfur á vaxandi verðbólgu á næstunni. Bankinn spáði þó minni hækkun reiknaðrar húsaleigu og bílverðs en Hagstofan mældi.

Meira líf á húsnæðismarkaði en bjuggust við

Jafnframt bjóst bankinn ekki við að jafnmikið líf væri á íbúðamarkaði og nú virðist mælast. Markaðsverð íbúðaverðs hafi hækkað um 0,6% í októbermánuði, mest í sérbýlum á höfuðborgarsvæðinu eða 1,0%, en minnst í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu eða 0,5%. Þetta er þó hærri hækkunartaktur en undanfarin tvö ár.

Hækkunin á landsbyggðinni nam 0,6%, en þar vegur þungt allmyndarleg hækkun í stórum þéttbýliskjörnum nærri höfuðborgarsvæðinu, eins og í Reykjanesbæ, Árborg og Akranesi, auk Akureyri.

Spáir bankinn því að vísitala neysluverðs hækki um 0,3% í nóvember, 0,5% í desember og 0,1% í janúar og verði verðbólgan því 3,5% í þeim mánuði. Sem er heilu prósenti yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.