Ársverðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,5% í júlí og hjaðnaði um 0,6 prósentur frá því í júní þegar hún náði sínu hæsta gildi í fjóra áratugi. Verðbólgan mældist undir spám hagfræðinga sem Bloomberg leitaði til en þeir áttu von á 8,7% verðbólgu að meðaltali.

Kjarnaverðbólga (e. core-price index), sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, mældist 5,9% í júlí og var óbreytt frá júnímánuði. Kjarnaverðbólgan hefur ekki mælst meiri síðan árið 1982.

Ávöxtunarkrafa á tíu ára bandarískum ríkisskuldabréfum lækkaði um 0,1 prósentu, niður í 2,7%, eftir að Vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti verðbólgutölurnar í dag. Þá lækkaði krafan á tveggja ára ríkisbréfunum um 0,2 prósentur, niður í 3,1%.

Sjá einnig: Stýrivextir í Bandaríkjunum hækka um 0,75 prósentur

Í umfjöllun Financial Times segir að betri verðbólgutölur en von var á muni draga úr áhyggjum um aðra 75 punkta stýrivaxtahækkun frá Seðlabanka Bandaríkjanna en bankinn hefur hækkað vexti um 75 punkta í tvígang á síðustu tveimur mánuðum.