Kweku Adoboli, fyrrverandi miðlari hjá svissneska risabankanum UBS í London, tapaði sem svaraði til tveggja Wembley-leikjavanga og hefði getað tapað öllu eigin fé bankans áður en upp komst að hann hafði farið langt út fyrir heimildir sínar á tveggja ára tímabili. Adoboli glopraði 1,4 milljörðum punda, jafnvirði tæpra 340 milljarða íslenskra króna, með viðskiptum sínum í nafni bankans.

Málið komst upp fyrir ári í kjölfarið féll gengi UBS um 10%. Hluthafar bankans horfðu upp á 2,8 milljarða punda verða að engu.

Fram kom í máli saksóknara í máli bankans gegn Adoboli þegar rekstur þess hófst fyrir helgi, að með viðskiptunum hafi hann reynt að þrýsta upp árangurstengdum greiðslum frá bankanum til sín og verið hætt kominn með að setja bankann á hliðina. Adoboli var með 110 þúsund pund í föst árslaun árið 2010, jafnvirði tæpra 22 milljóna króna, 1,8 milljónir króna á mánuði. Ofan á launin bættust bónusgreiðslur upp á 250 þúsund pund fyrir árið. Adoboli er sakaður um að hafa falsað skjöl og bókhald bankans í því skyni að draga úr tapinu og fela slóð sína.

Hann neitar öllum ásökunum um hvort heldur er bókhaldsbrot og skjalafals, að sögn breska ríkisútvarpsins, BBC.