Greiningardeild Arion banka spáir lækkun verðlags í júlí og að verðbólga haldist undir 2% næstu mánuðina. Síðan spáir deildin að verðbólgan verði í kringum 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans í nóvember og desember og að hún stígi svo hratt á fyrsta fjórðungi næsta árs.

Vegna lækkunar pundsins og annarra gjaldmiðla

Spáir greiningardeildin að vísitala neysluverðs lækki um 0,2% milli mánaða og leita þurfi aftur til febrúar á síðasta ári til að finna minni verðbólgu.

Færa sérfræðingar greiningardeildarinnar skammtímaverðbólguspá sína niður á við sökum gengisstyrkingar krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum landsins, en hún hefur verið sérstaklega mikil gagnvart breska pundinu enda lækkaði það mikið í kjölfar úrsagnar landsins úr Evrópusambandinu.

Sumarútsölur vega þyngst

Segja þeir áhrifin af sumarútsölum vega þyngst í júlímánuði, en eldsneytisverð lækki sömuleiðis. Hins vegar hækki húsnæðisliðurinn mest milli mánaða, en einnig flugfargjöld til útlanda, matur og drykkjarvörur. Einnig hækki hótel og veitingastaðir yfir sumarmánuðina.

Enn sé þó spenna í hagkerfinu, ekkert lát sé á fjölgun ferðamanna, jákvæður viðskiptajöfnuður, vaxtamunur talsverður við útlönd og almennt séu efnahagshorfur hér á landi betri en í flestum þróuðum ríkjum. Loks segja þeir að líklegt sé að hægja fari á gjaldeyrissöfnun seðlabankans.