Heimsmarkaðsverð á hráolíu rauk upp í tæpa 99 Bandaríkjadali á tunnu á fjármálamörkuðum í dag. Verðið hefur sveiflast talsvert upp á síðkastið. Það stóð í 113 dölum á tunnu í maí áður en það hrapaði niður. Það stóð í 75 dölum á tunnu í byrjun október áður en það tók að rísa á ný.

Verðið miðast við framvirka samninga á olíu sem afhendist í næsta mánuði.

AP-fréttastofan hefur eftir fjármálasérfræðingum að verðþróunin skýrist af nokkrum þáttum, svosem óróleika á fjármálamörkuðum. Mestu muni þó um styrkingu Bandaríkjadals gagnavart öðrum gjaldmiðlum.