Tilskipun Evrópusambandsins um leggur ekki almennt bann við skilmálum verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda að mati EFTA-dómstólsins. Það er hins vegar íslenskra dómstóla að leggja mat á það hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur.

Í haust mun dómstóllinn gefa ráðgefandi álit í öðru máli sem snýr að verðtryggingunni. Sævar Jón Gunnarsson höfðaði það mál gegn Landsbankanum vegna 630 þúsund króna verðtryggðs láns sem var tekið árið 2008. Í því máli eru fimm sömu spurningarnar og í máli Gunnars en ein aukaspurning. Almennt er talið að þessi aukaspurning sé sú áhugaverðasta af öllum spurningunum en í henni er spurt um réttmæti þess að miða við 0% verðbólgu í lánasamningum.

Lesa má álit dómstólsins hér .

Lagðar voru fimm spurningar fyrir dómstólinn og fylgja þær hér eftir með áliti EFTA-dómstólsins á hverri spurningu.

1. spurning:

Samrýmist það ákvæðum tilskipunar ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum ef löggjöf í ríki sem aðild á að EESsamningnum heimilar að samningur neytanda og veitanda um lán til fjármögnunar fasteignakaupa hafi að geyma ákvæði þess efnis að greiðslur af láninu skuli verðtryggðar samkvæmt fyrirfram ákveðinni vísitölu?

Svar EFTA-dómstólsins:

„Fyrstu spurningunni verður því að svara þannig að tilskipun 93/13/EBE leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitanda og neytanda. Það er landsdómstólsins að leggja mat á það hvort umræddur skilmáli sé óréttmætur. Matið verður að taka mið af leiðbeiningum dómstólsins um skýringu hugtaksins ,,óréttmætur skilmáli“.“

2. spurning:

Ef svarið við fyrstu spurningunni er á þann veg að verðtrygging greiðslna af láni sem tekið er til fjármögnunar fasteignakaupa sé samrýmanleg ákvæðum tilskipunar 93/13/EBE þá er í öðru lagi spurt hvort tilskipunin takmarki svigrúm viðkomandi samningsríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir skuli valda breytingum á hinni fyrirfram ákveðnu vísitölu og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar?

Svar EFTA-dómstólsins:

„Þar af leiðandi verður að svara annarri spurningunni með þeim hætti að tilskipunin takmarki ekki svigrúm EES-ríkis til þess að ákveða með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum hvaða þættir geti valdið breytingum á fyrirfram ákveðinni vísitölu, á borð við hina íslensku vísitölu neysluverðs, og eftir hvaða aðferðum þær breytingar skuli mældar, að því gefnu að þeim sé lýst með skýrum hætti í samningnum.“

3. spurning:

Ef svarið við annarri spurningunni er að tilskipun 93/13/EBE takmarki ekki það svigrúm samningsríkis sem nefnt er í þeirri spurningu þá er í þriðja lagi spurt hvort samningsskilmáli teljist hafa verið sérstaklega umsaminn í skilningi 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar þegar a) tekið er fram í skuldabréfi sem neytandi undirritar í tilefni lántöku að skuldbinding hans sé verðtryggð og tilgreint er í skuldabréfinu við hvaða grunnvísitölu verðbreytingar skuli miðast, b) skuldabréfinu fylgir yfirlit sem sýnir áætlaðar og sundurliðaðar greiðslur á gjalddögum lánsins og tekið er fram í yfirlitinu að áætlunin geti tekið breytingum í samræmi við verðtryggingarákvæði lánssamningsins, og c) neytandi og veitandi undirrita báðir greiðsluyfirlitið samtímis og samhliða því að neytandi undirritar skuldabréfið?

Svar EFTA-dómstólsins:

„Þar af leiðandi er ekkert í beiðni landsdómstólsins sem bendir til þess að sérstaklega hafi verið samið um efni skuldabréfsins sem málið sem þar er rekið snýst um. Ef stefndi heldur öðru fram er það hans að færa sönnur á að svo sé samkvæmt 3. undirlið 2. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar. Af gögnum sem fylgja beiðninni virðist aftur á móti mega ráða að verðtryggingarákvæðið hafi hvort tveggja verið staðlaður skilmáli hjá bankanum og hluti af stöðluðu skjali.

Í ljósi þess sem rakið er hér að framan verður að svara þriðju spurningunni með þeim hætti að það sé landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort samið hafi verið sérstaklega um tiltekinn samningsskilmála í skilningi 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.“

4. spurning:

Telst aðferðin við útreikning verðbreytinga í lánssamningi um fjármögnun fasteignakaupa hafa verið útskýrð rækilega fyrir neytanda í skilningi d. liðar 2. gr. viðauka við tilskipun 93/13/EBE þegar atvik eru með þeim hætti sem nánar greinir í þriðju spurningunni?

Svar EFTA-dómstólsins:

„Því verður að svara fjórðu spurningunni með þeim hætti að það sé landsdómstólsins að meta hvort samningsskilmáli um verðtryggingu afborgana af láni til fjármögnunar á fasteignakaupum skuli teljast hafa verið lýst fyrir neytandanum með skýrum og skiljanlegum hætti. Slíkt mat verður að taka mið af nákvæmu orðalagi viðeigandi samningsskilmála og öllum öðrum aðstæðum, þar á meðal þeirra sem vísað er til í aog b-hluta þriðju spurningar landsdómstólsins, auk ákvæða landsréttar um verðtryggingu.“

5. spurning:

Á ríki sem er aðili að EES-samningnum val milli þess við innleiðingu 1. mgr. 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE, annars vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að heimilt sé að lýsa óskuldbindandi fyrir neytanda óréttmæta skilmála í skilningi 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar, eða hins vegar að mæla svo fyrir í landsrétti að slíkir skilmálar skuli ávallt vera óskuldbindandi fyrir neytandann?

Svar EFTA-dómstólsins:

„Í ljósi framangreindra atriða er svarið við fimmtu spurningunni að 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar verði að túlka með þeim hætti að í þeim tilvikum þar sem landsdómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að tiltekinn samningsskilmáli sé óréttmætur samkvæmt tilskipuninni beri þeim dómstól að tryggja að slíkur skilmáli sé óskuldbindandi fyrir neytandann að því gefnu að samningurinn  geti haldið gildi sínu að öðru leyti án hins óréttmæta skilmála að því marki sem reglur landsréttar leyfa.“