Á dögunum var Davíð Gunnarsson ráðinn nýr framkvæmdastjóri Dohop og tók við því starfi af Kristjáni Guðna Bjarnasyni sem er orðinn tæknistjóri félagsins.

Davíð er Dohop alls ekki ókunnugur en hann hefur starfað þar með hléum frá árinu 2009. Hann stundaði nám við Háskóla Íslands í stærðfræði, tölvunarfræði og hagfræði og gegndi þá stöðu formanns Stúdentaráðs fyrir hönd Vöku. Frá árinu 2005 starfaði hann hjá Kaupþingi, fyrst á greiningardeild og svo í eigin viðskiptum bankans allt þar til í október 2008.

Stuttu síðar hóf hann störf hjá Dohop þar sem hann var ráðinn sem markaðsstjóri fyrirtækisins en hann gegndi þeirri stöðu til ársins 2013 þegar hann hóf störf hjá H.F. verðbréfum. Þar staldraði hann stutt við og sneri aftur til Dohop átta mánuðum síðar.

„Kristján hafði samband við mig í október 2013 á sama tíma og Jón von Tezchner kemur inn sem nýr fjárfestir í félaginu,“ segir Davíð en þá tók hann við viðskiptaþróun og tekjustjórnun hjá félaginu.

„Nýlega hefur áherslan hjá Kristjáni þróast í þá átt að hann vill einbeita sér meira að tæknihliðinni. Ég þekki engan á jörðinni sem er betri í því að stjórna svona tæknihópi. Þetta skref er í raun skýrt merki þess að við erum að láta tekjuhliðina vaxa í takt við tæknina. Við erum með tækni sem er algjörlega á pari við þá bestu í heiminum á þessu sviði. Ég er sjálfur mjög viðskiptaþenkjandi og það skiptir miklu máli þegar maður er í svona miklu tækniumhverfi. Ég er líka með tæknibakgrunn og hef tekið þátt í að búa til
sprotafyrirtæki.

Ég held að ég gæti ekki verið framkvæmdastjóri ef ég hefði hann ekki vegna þess að þessir tæknikallar myndu ekkert samþykkja það. Maður verður að vera smá nörd í sér,“ segir Davíð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .