Vísitala neysluverðs í Japan hækkaði um 0,1% í nóvember frá sama tíma í fyrra. Hagfræðingar telja almennt þetta vera vísbendingu um viðsnúningur sé að eiga sér stað í næst stærsta hagkerfi heims og bæði greiningardeildir KB banka og Landsbankans gera þetta að umtalsefni í fréttabréfum sínum.

Hagtölurnar koma í kjölfar þess að hagnaður fyrirtækja hefur verið að aukast sem hvatt hefur áfram fjárfestingu og einkaneyslu. Ef aukningin heldur áfram þá gæti það bent til þess að aðhald Seðlabanka Japans aukist á næstu misserum og að dagar lágra vaxta séu taldir. Hins vegar virðast hagfræðingar telja að stýrivextir verði um 0% enn um sinn eða fram á mitt næsta ár.