AP sýningar munu í annað sinn standa að sýningunni Verk og vit  en að þessu sinni verður hún haldin dagana 17.-20. apríl 2008 í Laugardal. Sýningin var í fyrsta sinn haldin í mars 2006 og vakti þá mikla athygli.

Að þessu sinni verður sýningin  tileinkuð byggingariðnaði, skipulagsmálum, mannvirkjagerð og orkumálum. Þróun hefur verið hröð í þessum greinum á sama tíma og mikil framkvæmdagleði ríkir á Íslandi þar sem landsmenn verða vitni að fjölda stórframkvæmda í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og orkumálum.


Samkvæmt tilkynningu frá AP sýningum er undirbúningur Verk og vit í fullum gangi og nú þegar hefur 40% sýningarsvæðisins verið bókað. Félagsmenn SI fá 20% afslátt á sýningarrými ef þeir skrá sig fyrir 1. október en aðrir fá 10% afslátt skrái þeir sig fyrir sama tíma.

?Við erum ánægð með viðtökurnar og hlökkum til að vinna með sýnendum við að gera góða sýningu enn betri. Við heyrðum það á sýnendum á Verki og viti 2006 að þeir voru ánægðir með hvernig til tókst og áhuginn á þátttöku nú sýnir að það er hugur í mönnum að kynna allt það nýjasta á þessum vettvangi,? segir Margit Elva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Verks og vits 2008.

AP sýningar standa að Verki og viti 2008 í samstarfi við iðnaðarráðuneyti, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, Landsbankann og Ístak.