*

laugardagur, 23. október 2021
Innlent 15. október 2018 10:34

Verkalýðshreyfingin verði herskárri

Frambjóðandi til forseta ASÍ vill beita sér í stjórnmálum og segir árangurinn í kjarasamningunum 2015 ágætan.

Ritstjórn
Drífa Snædal er framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.
Aðsend mynd

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri SGS og frambjóðandi til forseta ASÍ segir að verkefni forseta séu auk kjaramála húsnæðismál, félagsleg undirboð og skattbreytingar. Í samtali við Rúv segir hún verkalýðshreyfinguna verða að vera pólitískari þó hún jafnframt segi það styrk hennar að vera ekki jafnnátengd stjórnmálaflokkunum og er á hinum Norðurlöndunum.

„Og vera herskárri í því að fá fram breytingar hvort sem það er í gegnum lagasetningu eða hvað sem gagnast launafólki á Íslandi,“ segir Drífa sem vill endurheimta bótakerfið eins og hún kallar það. „Við sjáum það að húsnæðisstuðningur hins opinbera hefur hríðlækkað, barnabætur eru orðnar fátækrastyrkur en ekki aðstoð til fjölskyldufólks.“

Áratugahljóm um stöðugleika og ábyrgð

Jafnframt segir hún að ágætis árangur hafi náðst í kjarasamningunum árið 2015. „Þá var horfið frá tveggja til þriggja prósenta hækkun á línuna - stöðugleiki og allir að sýna ábyrgð - þetta sem er búið að hljóma í okkar eyrum í nokkra áratugi nánast,“ sagði Drífa í Morgunútvarpi RÚV í morgun.

Þar var einnig rætt við Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóra AFLs, mótframbjóðanda Drífu, fyrir viku síðan. Segir Drífa félagsleg undirboð vera öðru nafni glæpastarfsemi á vinnumarkaði og kallar eftir að skattkerfið nýtist til jöfnunar tekna.

„Já hún þarf að gera það,“ segir Drífa spurð hvort verkalýðshreyfingin þurfi að beita sér meira í stjórnmálunum. „Hún þarf að kynna meira hugmyndir, taka eigið frumkvæði að því að kynna hugmyndir.“ Segir hún að Starfsgreinasambandið hafi leitt sóknarbaráttuna fyrir hækkun lægstu launa síðustu ár og það hafi tekist að fá það í gegn árið 2015 eins og fyrr segir.

„Síðan er það þannig að þær kjarabætur sem hefur verið samið um það hefur verið tekið til baka af ríkinu eða viðbragðsleysi hins opinbera gagnvart til dæmis húsnæðismarkaðinum,“ segir Drífa sem vísar einnig í að aukin ferðaþjónusta sé vinnuaflsfrek grein sem ekki krefst mikillar menntunar.

„Þrýstingur [er á] að halda niðri launum þar sem launakostnaður er stórt hlutfall af kostnaði þessara fyrirtækja. Fyrir vinnuaflið í landinu hefur þetta ekki verið sérstaklega góð þróun. Svo þurfum við  fleiri hendur til að vinna verkin en við búum yfir.“

Loftlagsskýrsla SÞ kalli á aukna innlenda framleiðslu

Drífa segir þetta valda því að hér séu að myndast tvær þjóðir í landinu sem ekki hafi mikla snertifleti. „Þú getur komið hingað á vegum starfsmannaleigu og nánast ekki hitt Íslending,“ segir Drífa sem segir þannig sé að myndast heil stétt fólks af erlendum uppruna á lægstu laununum. Það sé hlutverk verkalýðsfélaganna að ljá þessu fólki rödd enda séu þeir ekki kjósendur.

„Við höfum vísbendingar um það að þar sé 30 prósenta launamunur. Við erum ekki að meta menntun þessa fólks þannig að það raðast ekki rétt í laun.“ Drífa segir loftlagsskýrslu SÞ eiga eftir að hafa gríðarleg áhrif, þar með talið á ferðaþjónustu.

„Það verður aukinn þungi á innlenda framleiðslu, minnka kolefnisfótsporin, minnka flutning matvæla milli heimshluta. Ég myndi halda að til langs tíma að þetta myndi fækka störfum í ferðaþjónustu og fjölga störfum í innlendri framleiðslu,“ segir Drífa.