Vegna verkefnaskorts sem leitt hefur til þess að fjármögnun hefur ekki tekist verður afhendingu á nýju fimm milljarða króna skipi dótturfélags Fáfnis Offshore verið seinkað um tvö ár. Kemur þetta fram í frétt DV um málið.

Er þetta í annað sinn sem afhendingu skipsins er frestað, en stjórnendur fyrirtækisins komust um miðjan mánuðinn að samkomulagi við norsku skipasmíðastöðina Havyard um frestun sjósetningu þess þangað til í apríl árið 2019.

Íslenskir lífeyrissjóðir eru stórir eigendur að Fáfni en skipasmíðastöðin gerði þá kröfu að dótturfélagið gangi frá fyrirframgreiðslu á hluta kaupverðsins á næsta ári.

Fáfnir Offshore rekur dýrasta skip Íslandssögunnar, Polarsyssel, sem er sérútbúið olíuþjónustuskip, en það pantaði nýja skipið, Fáfnir Víking í apríl árið 2014.

Þá átti skipið að kosta 350 milljónir norskra króna sem var andvirði 4,8 milljarða króna miðað við þáverandi gengi.

Segir í tilkynningu skipasmíðastöðvarinnar að frestunin sé vegna þess að ekki tókst að tryggja nýja skipinu framtíðarverkefni sem séu skilyrði fyrir lánsfjármögnun.