Um þrjú hundruð læknar á heilsugæslustöðvum og Landspítalanum hófu verkfallsaðgerðir á miðnætti. Eru þær tímabundnar og munu hefjast á ólíkum tímum eftir hópum.

Í auglýsingu Læknafélags Íslands sem birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélagsins, að óhjákvæmilegt sé að aðgerðirnar valdi óþægindum. Segir hann að kjarabarátta lækna snúist ekki bara um laun heldur einnig um eðlilega endurnýjun í læknastéttinni. Á undanförnum árum hafi Íslendingar misst hóp lækna úr landi sem sé mikil blóðtaka.

„Læknar bera ekki ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Okkur er hins vegar langt í frá sama um hana. Í gegnum tíðina höfum við bæði axlað ábyrgð sem einstaklingar og sem heild eftir því sem í okkar valdi hefur staðið. Við viljum gera það áfram. Þess vegna grípum við til aðgerða. Við teljum það ábyrgðarleysi af okkar hálfu að bregðast ekki af alefli við þeim vanda sem við blasir,“ segir Þorbjörn.