Vöffluilmur leikur nú um skrifstofur Ríkissáttasemjara, en samkomulag hefur náðst á milli við sex stéttarfélög iðnaðarmanna og Samtaka atvinnulífsins. Verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti hefur því verið afstýrt, en kjarasamningur verður nú sendur iðnaðarmönnum til samþykktar eða synjunar. Um 10.000 félagsmenn eru í iðnaðarmannafélögunum.

„Það er verið að undirbúa það að það verði skrifað undir samninga við öll félögin. Þetta er bara niðurstaða sem menn eru komnir að, að það verði ekki komist lengra í þessari atrennu. Þá er ekkert annað að gera en að skrifa undir og senda þetta til félagsmanna, sem kjósa um hvort þeir eru ánægðir með niðurstöðuna eða ekki," segir Guðmundur Ragnarsson, formaður VM, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2.

Komust ekki lengra með kröfurnar

„Menn áttuðu sig á því á ákveðnum tímapunkti að það verður ekki lengra komist. Það er sameiginleg niðurstaða sem við erum að taka að við komumst ekki lengra í bili. Það verður þá bara að sjá hvort að þeir sem greiða atkvæði um samninginn eru sáttir eða sammála þeirri niðurstöðu sem við munum skrifa undir fljótlega," bætir hann við.

Aðspurður hvort eigi eftir að skoða einhverja þætti kjarasamnings segir Guðmundur svo ekki vera. „Nei nei, þetta er nú bara komið núna, af því að deigið er tilbúið. Þá er lítið annað að gera en að setja bara nafnið sitt á þetta. Þetta er bara komið."

„Það er nú bara þannig í samningum að menn verða að átta sig á því að það verður ekki lengra komist. Ég held að það sé svona sameiginleg niðurstaða. Við komumst ekki lengra í bili."