Fréttamenn, ljósmyndarar og myndatökumenn á netmiðlum Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, RÚV og Vísis lögðu niður störf nú klukkan 10 og hefja þeir störf að nýju klukkan 14, í fyrstu verkfallsaðgerðum blaðamanna í rúm 40 ár.

Verkfallið er hið fyrsta af nokkrum sem Blaðamannafélag Íslands hefur boðað til í samningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins, en þess má geta að margir fyrrgreindra starfsmanna hjá RÚV eru í Félagi fréttamanna, og leggja því ekki niður störf.

Aðrir fjölmiðlar – sem ekki eru meðlimir í SA – taka ekki þátt í verkfallsaðgerðunum, og Viðskiptablaðið heldur því ótrautt áfram að greina landsmönnum frá gangi mála í viðskiptalífinu.

Næstu fyrirhuguðu verkföll eru næsta föstudag í 8 klukkutíma, og þann þarnæsta í 12 tíma. Að lokum munu svo blaðamenn á prentmiðlum leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember, daginn fyrir hinn svokallaða svarta föstudag, hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma.