11,2% verðmunur reyndist á matvörukörfunni þegar verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í lágvöruverðsverslunum þriðjudaginn 3. júní. Vörukarfan var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði kr. 8.922 en dýrust í Nettó kr. 9.925, verðmunurinn er 1.003 krónur.

Þetta kemur fram á vef ASÍ.

Þar kemur fram að af einstökum liðum í vörukörfunni er minnstur verðmunur milli verslana á mjólkurvörum og ávöxtum og áberandi er að mun minni verðmunur er á þeim vörum sem seldar eru í sömu pakkastærð í öllum verslunum.

Mikill munur er oft á mælieiningaverði vara frá þektum vörumerkjum sem fáanlegar eru í öllum verslunum í mis stórum einingum. Sem dæmi má nefna að 194% verðmunur var á kílóverði af Hunt´s tómatsósu sem var hæst kr. 344 í Krónunni en lægst kr. 117 í Kaskó.

55% verðmunur reyndist á kílóverði af flatkökum frá Ömmubakstri sem var hæst kr. 650 í Krónunni en lægst kr. 419 í Bónus. Kílóverð á kornflexi frá Kellog´s var frá kr.459 í Bónus þar sem það var lægst og upp í kr. 593 í Krónunni þar sem það var hæst sem er 29% verðmunur.

„Athygli vekur að af þeim 42 vörum sem eru í vörukörfunni var 1 krónu verðmunur á milli Bónus og Krónunnar í 16 tilvikum og sama verð í báðum verslunum í 3 tilvikum,“ segir á vef ASÍ.

Vörukarfan samanstendur af 42 almennum neysluvörum til heimilisins ss. mjólkurvörum, osti, brauðmeti,morgunkorni ávöxtum, grænmeti, áleggi, kjöti, drykkjarvörum, sætindum og nasli, ásamt ýmsum pakkavörum, dósamat ofl.

Á vef ASÍ kemur fram að við útreikning á verði vörukörfunnar er tekið mið af því hvar neytandinn fær mesta magn af ákveðnum matvöru fyrir sem lægst verð. Vörurnar í körfunni eru flestar frá þekktum vörumerkjum sem þó geta verið seldar í mismunandi pakkastærðum eftir verslunum.

Er þá tekið er mið af lægsta mælieiningaverði (kíló/lítraverð) vörunnar í hverri verslun. Cherrios morgunkorn er t.d selt í þremur mismunadi pakkaningum í verslunum, 397 g, 518 g og 992 g, hér er því reiknað út kílóverð á Cherriosi til þess að átta sig á því hvar fæst mest magn af þessari vöru fyrir lægst verð. Í þeim tilvikum þar sem vörumerki eru mismunandi eftir verslunum ss. í kjöti, fiski og grænmeti og ávöxtum er tekið verð á ódýrustu fáanlegu vöru sem uppfyllir sett skilyrði í viðkomandi verslun.

Könnunin var gerð í eftirtöldum verslunum: Bónus Kauptúni, Krónunni Bíldshöfða, Nettó í Mjódd og Kaskó Vesturbergi.